Sumarfrí 19. júlí til 4. Ágúst. Sendum næst 6. ágúst.

Kaffi og ristun


 

Kaffibrugghúsið flytur inn og framleiðir kaffi í hæsta mögulega gæðaflokki sem er kallað "Specialty Coffee", eða Sérvalið Kaffi. Við erum virkir meðlimir í alþjóðlegum gæða samtökum, Specialty Coffee Association (SCA) sem eru hagsmunasamtök fyrir Sérvalið Kaffi. Við kaupum kaffi ýmist beint frá bónda eða í gegnum hrákaffi miðlara sem við þekkjum og treystum til þess að stunda sanngjörn viðskipti.

Þegar talað er um Sérvalið Kaffi er verið að vísa í ræktunarferlið frá baun í bolla og það gæðaeftirlit sem þarf að eiga sér stað til að uppfylla strangar kröfur gæðaflokksins. Það er því bara 10% af heimsframleiðslu kaffis sem flokkast sem Sérvalið Kaffi. 

Frá því að kaffiberið er handtínt af tréinu er aðalmarkmiðið að viðhalda gæðunum sem kaffiberið hefur uppá að bjóða. Þegar kaffið hefur verið unnið af kaffbóndanum, pakkað í sekki, flutt í gám, siglt yfir hafið, landað og keyrt í kaffibrennsluna er komið að okkur að standa okkur í fagleika og gæðaeftirlitinu. Í kaffibrennslunni leggjumst við í þá vinnu að finna út hvað brennslu prófíll hentar kaffinu og nær að kalla fram það besta úr kaffibaunum.  Þegar við erum ánægð með útkomuna er kaffið boðið til sölu til kaffiunnenda. Það er svo undir hverjum kaffiunnanda komið að hella uppá af alúð og virðingu við hráefnið. 

Að viðhalda gæðum alla leið frá baun í bolla er strangt ferðalag sem margar faghendur koma að og þess vegna er ekki allt framleitt kaffi sem kemst í þennan Sérvalda Kaffi gæðaflokk. 

 

Við framleiðum kaffið okkar á Giesen W6 kaffibrennslu ofni. Ofninn tekur að hámarki 6 kg í einu. Við ristum kaffið okkar að öllu jöfnu í Filter ristun og Espresso ristun. 

Filter ristunin er ljós til að ná fram björtum og tærum bragðeiginleikum kaffisins og hentar vel til uppáhellingar. Hæg uppáhelling, venjuleg kaffivél, pressukanna, Aeropress, V60 eða aðrar uppáhellingaraðferðir.

Espresso ristunin dregur fram dekkri bragðtóna úr kaffinu, góða fyllingu og lægri sýrni en filter ristunin. Kaffið er því heppilegra til notkunar í Espressóvél eða Mokkakönnu. En það má auðvitað nota kaffið í allar tegundir uppáhellingar ef leitað er eftir kröftugri bolla. 

Margar uppskriftir er hægt að styðjast við þegar kemur að því að hella uppá. Ein þumalputta regla sem SCA (Specialty Coffee Association) hefur mælt með er 55-60gr í einn lítra af vatni. Og svo má benda á það augljósa að ný framleitt kaffi, og malað eftir þörfum rétt áður en hellt er uppá eru nauðsynlegir þættir í því að hella uppá ljúfengan kaffibolla og ná fram bestu gæðum kaffisins.